Ferill 466. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 466 . mál.


724. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)



1. gr.


    3. málsl. 2. mgr. 91. gr. laganna fellur brott. Við greinina bætist ný málsgrein er verður 3. mgr., svohljóðandi:
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gjaldskyldu, innheimtu, útreikning, gjalddaga, lögvernd, álagningu gjalda samkvæmt áætlun og annað sem lýtur að framkvæmd á innheimtu gjaldanna.

2. gr.


    1. mgr. 92. gr. laganna orðast svo:
     1. Lán og styrki skal veita úr Fiskræktarsjóði er stuðli að aukningu og viðhaldi íslenska laxastofnsins, þar með talin kaup á úthafslaxveiðikvótum. Enn fremur til framkvæmda er lúta að fiskrækt eða fiskeldi, enda samþykki veiðimálastjóri tilhögun framkvæmda, þær séu gerðar undir eftirliti hans og hann mæli með styrkveitingunni. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um ráðstöfun fjár úr Fiskræktarsjóði.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta felur í sér breytingu á ákvæðum XIV. kafla laga nr. 76 25. júní 1970, um lax- og silungsveiði, sem fjallar um Fiskræktarsjóð og styrkveitingar til fiskræktar. Í 91. gr. laganna er fjallað um tekjur sjóðsins sem eru annars vegar fjárveiting úr ríkissjóði og gjöld af veiðitekjum og hins vegar tekjur vatnsaflsstöðva sem selja orku til almennings. Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins er bætt við greinina nýrri málsgrein um heimild ráðherra til að setja reglugerð sem kveður nánar á um gjaldskyldu, innheimtu o.fl. vegna þeirra gjalda sem greiða ber til sjóðsins. Slík ákvæði eru nauðsynleg til að Fiskræktarsjóður fái þær tekjur sem honum ber samkvæmt lögunum og þær innheimtist með eðlilegum hætti.
     Í 92. gr. laganna er fjallað um lán og styrkveitingar úr Fiskræktarsjóði og er þar einungis gert ráð fyrir að unnt sé að styrkja framkvæmdir er lúta að fiskrækt og fiskeldi. Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að heimild 1. mgr. 92. gr. verði aukin þannig að stjórn Fiskræktarsjóðs geti tekið ákvörðun um að styrkja verkefni sem stuðla að aukningu og viðhaldi íslenska laxastofnsins, t.d. kaup á úthafslaxveiðikvóta, rannsóknir í fiskrækt og fiskeldi o.fl.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga


um breytingu á lax- og silungsveiðilögum.


    Frumvarp þetta fjallar um þann kafla lax- og silungsveiðilaga er snýr að starfsemi Fiskræktarsjóðs. Með frumvarpinu er starfssvið sjóðsins rýmkað og honum heimilt að ráðstafa fé til kaupa á úthafslaxveiðikvótum o.fl. Þá eru sett ákvæði til að tryggja innheimtu þeirra gjalda sem rafveitum og veiðifélögum ber að skila til sjóðsins samkvæmt gildandi lögum.
     Frumvarpið hefur ekki í för með sér nein útgjöld fyrir ríkissjóð.